FIMM DAGA DÆGRADVÖL

Eftirfarandi er fimm daga ferðadagskrá, sem miðast við dvöl frá mánudegi til föstudags. Það hefur lengi verið vinsælt að skreppa í bíltúr “austur fyrir fjall”, en í slíkum skreppitúrum þarf að velja og hafna áningarstaði.  Kannski verða sömu staðirnir og sami rúnturinn alltaf fyrir valinu.

Okkur langaði að sýna fram á hve mikla fjölbreytni er að finna á svæðinu, í afþreyingu, útivist og ekki síst veitingum.  Taktu upp úr töskunum, komdu þér vel fyrir og njóttu þess að breyta til!  Upplifunin verður allt önnur, þegar þú hefur næði til að njóta.

Eitt að lokum: Okkur datt í hug að breyta þessari ferðadagskrá í pakkaferð, þar sem gesturinn bókar ferðapakka hjá okkur, með öllum veitingum og afþreyingu innifalið.  Það er jú mun þægilegra fyrir gestinn, en samkvæmt ferðaþjónustulögum þarf að hafa ferðaskrifstofuleyfi til þess og slíkt leyfi hefur Álftröð gistihús ekki.  Í staðinn lögðum við vinnu í ferðadagskrána, án endurgjalds og það er svo undir hverjum og einum komið, hvort henni er fylgt að hluta eða öllu leyti.

Dagur eitt
Reykjafoss – Selfoss – Álftröð

Ef lagt er upp frá höfuðborgarsvæðinu, er þægilegast að fara yfir Hellisheiðina og í gegnum Selfoss. Aksturstími að Álftröð er um klukkutími og tuttugu mínútur.

Afþreying dagsins

Hefurðu heyrt um Skáldaleiðina eða Skógarbraut?  Í Hveragerði eru margar merktar gönguleiðir (sjá kort og lýsingar) sem henta bæði fyrir hressa göngugarpa og rólyndis rápara.

Heilsuhringurinn er 2,6 km eða 4 km löng gönguleið með æfingastöðvum við stíginn. Fræðsluskilti með æfingum eru við stíginn sem reyna á mismunandi vöðvahópa. Upphaf og lok göngustígsins er við Sundlaugina Laugaskarði.

Hefur snjóað mikið undanfarið?  Icebike Adventures sér um troða Vetrarbrautina, fjölnota-spor sem hjólandi, gangandi, hlaupandi og skíðandi geta nýtt sér.

Fjölmörg söguskilti hafa verið sett upp víðs vegar um Hveragerði og gera þau grein fyrir sögu og menningu byggðarlagsins.

Og fyrir þau sem langar bara ekkert í göngu, þá stendur yfir sýningin Rófurass frá 6. feb – 23. maí.

Hádegisverður

Tilvalið er að snæða á Skyrgerðinni í Hveragerði eða Kaffi Krús á Selfossi.

Sundlaug

Sundhöll Selfoss

Í Sundhöll Selfoss (fjöldi í laug) er barna- og 18 metra innilaug, 25 metra útilaug, barnalaug með þremur rennibrautum, vaðlaug, vatnsgufa, sauna og heitir og kaldir pottar.

Ný viðbygging var opnuð sumarið 2015 sem gjörbylti allri aðstöðu við Sundhöllina en bætt var við barnalaug inni, nýrri afgreiðslu og stærri búningsklefum.

Ökuleið að Álftröð: Frá Selfossi er ekið áfram upp Skeiðaveg nr. 30 , beygt inn á Skálholtsveg nr. 31 í nokkra kílómetra og þaðan inn á veg 324.  Hlekkur á Google Maps

Kvöldverður

Restaurant Mika - Golden Circle Iceland

Restaurant Mika í Reykholti (20 mín) er fjölskyldufyrirtæki sem rekið er af hjónunum Michał og Bożenu Józefik.

Munið eftir handgerða súkkulaðinu og munið að bóka fyrirfram.

Dagur tvö
Brúarfoss – Efstidalur – Laugarvatn

Að sjálfsögðu byrjar dagurinn á staðgóðum morgunverði sem er innifalinn í gistingunni og svo er það útivistin!

Afþreying dagsins

Við mælum með skemmtilegri göngu á einn af stöðunum sem erlendir ferðamenn hafa uppgötvað á samfélagsmiðlum: Brúarfoss 

Brúarfoss

Þrír fossar eru í Brúará en ekki sérlega háir. Efstur þeirra er Brúarfoss þar sem áin steypist niður í gjána. 

Fyrsti fossinn sem komið er að heitir Hlauptungufoss, um fjórir metrar á hæð.

Stuttu seinna er gengið fram á Miðfoss, sem er mun minni en nágrannar hans, lítið meira en veglegar flúðir.

Litlu ofar er komið að þeim stað sem Fremri-Vallá rennur í Brúará.

Þaðan er örstutt ganga að fallegast og mikilfenglegasta fossinum á þessari göngu, sjálfum Brúarfossi. Þar er göngubrú yfir og sé staðið á henni og horft uppeftir ánni má sjá að þar hefur myndast sprunga eða gjá í árfarveginum og þar rennur stærsti hluti árinnar.

Ef vel er að gáð má sjá lítinn steinboga yfir ánna undir göngubrúnni og telja margir að nafn árinnar sé frá honum dregið. Sagnir herma að brytinn í Skálholti hafi árið 1602 látið brjóta steinbogann til að fækka heimsóknum þurfalinga í Skálholt. Brytum í Skálholti er þó eignað margt misjafnt í sögum og ætti að taka þessari og öðrum með það í huga. Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Ökuleið 30 mín frá Álftröð

Hádegisverður

Efsti-Dalur Ferðamannafjós þar sem fylgjast má með mjöltum, ís- og ostagerð ásamt því að borða veitingar beint frá býli á veitingastað og í ísbúð. Það er ekki langt að fara, því Brúará liggur meðfram landi Efsta-Dals.

Sundlaug

Í sundlauginn á Laugarvatni er 25 metra sundlaug, 3 heitir pottar og gufubað. Í augnablikinu eru Fontanta náttúruböðin opin föstudaga til sunnudaga frá 12:00 – 21:00 

Þar sem allar vegalengdir eru svo stuttar, er auðvelt að hafa dagskrána sveigjanlega.  Þægilegt er að skipta deginum í tvennt, með því að slappa af heima á gistihúsinu eftir sundið (það væri ekki mjög sniðugt fram og til baka) og fara svo í kvöldmat á Laugarvatni.  Eða taka daginn rólega og tengja þetta saman í eina ferð.

Kvöldverður

Allur matur bragðast betur í sveitinni. Í Héraðsskólanum leggja allir sig fram til að viðhalda þeirri venju og góða bragði. Bókun í síma 537 8060 eða info@heradsskolinn.is

Dagur þrjú
Reykholt –
Haukadalur

Það er alltaf gott að hafa einn afslöppunardag í dagskránni og nú mælum við með rólegum morgni á Álftröð, nýta setustofuna fyrir lestur eða prjónaskap. Nú, svo má líka kíkja í heimsókn í hesthúsið og fylgjast með morgungjöfinni.

Hádegisverður

Það er aðeins 20 mínútna keyrsla á Friðheima, þar sem ræktaðir eru tómatar allan ársins hring í raflýstum gróðurhúsum, þrátt fyrir langan og dimman vetur. 

Rauði þráðurinn í eldhúsi Friðheima er tómatar í hinum ýmsu myndum, þar sem málsverðurinn er borinn fram innan um tómatplönturnar. Matarupplifun sem á sér fáar hliðstæður. Vinsamlegast bókið fyrir fram í tölvupósti eða í síma 486 8894.

Afþreying dagsins

Skemmtilegur og skjólsæll útivistarskógur í Haukadal með merktum gönguleiðum og sérhönnuðum stíg fyrir hjólastóla. Ökuleið frá Friðheimum, 23 mínútur.

Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi. Kort af gönguleiðum

Kvöldverður

Á Geysi geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi þegar það kemur að veitingum en hægt er að velja úr fimm veitingastöðum.  Hótel Geysir, Geysir Glíma, Litli Geysir Hótel, Kantína og Súpa.

Dagur fjögur
Flúðir –
Brúarhlöð
Gullfoss að austanverðu

Enn nýtum við okkur fjölbreytta afþreyingu í nærumhverfinu og stefnum nú að Brúarhlöðum, 33 mínútna keyrsla.

Afþreying dagsins

Trébrú yfir Brúarhlöð var fyrst byggð Íslands 1907, en þá var dýrasti vegur Íslandssögunnar Kóngsvegur lagður um Uppsveitir Árnessýslu.föruneyti reið yfir brúna við Brúarhlöð. Áin hefur grafið farveg sinn í þursaberg. Í ánni eru tveir drangar sem kallast Karl og Kerling. 

Gönguleið að Gullfossi að austanverðu

Hefur þú einhvern tíma komið að Gullfossi að austanverðu?  Frá Brúarhlöðum er stutt að fara inn Tungufellsdal og inn í Deild. Þar er skilti á vinstri hönd sem vísar til gönguleiðar að Gullfossi sem hefst á plani við girðinguna. Leiðin er merkt með lituðum steinum. Erfiðleikastig: 1. tími 1-2 klst 2,2 km aðra leið. Ofangreind heimild: Gönguleiðir í Hrunamannahreppi, sjá göngukort á bls 13.

Hádegisverður

Eftir morgungönguna er stutt í fisk eða Flúðaborgara á Kaffihús Grund, bókanir í síma 565 9196.

Sundlaug

Gamla laugin er opin föstudaga-sunnudaga

Kvöldmatur

Minilik, Eþíópskur veitingastaður á Flúðum.

Brottfarardagur

Þá er komið að lokadegi í þessari fimm daga ferðadagskrá.  Við settum líka saman ferðadagskrá fyrir lengri dvöl, sjá hér – væntanlegt – 

Að útskráningu lokinni er hendi næst að heimsækja Skálholt, einn mesta sögustað Íslands og biskupssetur síðan 1056. Í kjallara kirkjunnar er sýning með gripum og sögubrotum. Hægt er að bóka stutta og langa staðarskoðun fyrir hópa og einstaklinga allt árið með leiðsögn um kirkjuna, sýninguna og sögustaði í Skálholti.

Hádegisverður

Eftir göngu um Skálholtssvæðið, blasir við að snæða í veitingasölunni, sem er opin alla daga 9 – 17 með mat beint frá býli. Bóka veitingar

Afþreying dagsins

Upp með Tungufljóti er að finna fossinn Faxa og Tungnaréttir. Fallegt útsýni er frá tjaldsvæðinu og fallegar gönguleiðir.

Að lokum viljum við benda á Vitaleiðina, ferðaleið sem beinir athygli ferðafólks að þorpunum og svæðinu við sjóinn. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er um 45 – 49km leið, fer eftir ferðamáta, sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita. 

Nánari upplýsingar um ferðadagskrána

Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita, er boðin og búin að svara spurningum um ferðadagskrána og afþreyingu á svæðinu.

Sími: 8981957 

Netfang: asborg@ismennt.is