Laugarvatn er rúmlega 2 ferkílómetrar að flatarmáli, grunnt og gróðursælt. Heitar uppsprettur eru víða í vatninu og á vatnsbakkanum. Laugarvatn hefur lengi verið vinsæll áningastaður ferðamanna og rómaður sumardvalarstaður.
„Byggð á Laugarvatni er gömul. Treysti menn Njálu og Kristnisögu sem heimildum er þar byggð um árið 1000. Í Víkingsmáldaga 1397 er getið um kirkju á Laugarvatni. Samkvæmt Gíslamáldaga er þar hálfkirkja 1575. Ekki er vitað nú hvenær þetta guðshús var aflagt. Annað mat gilti fyrrum um gögn og gæði jarða en nú er, og gildir þá einu hvort átt er við opinbert mat eða almennan skilning þessara orða. Laugarvatn mun alltaf hafa verið í hópi betri jarða en þó ekki afburða jörð í mati.” (Sunnlenskar byggðir III bls. 31, Búnaðarsamband Suðurlands 1983)
Laugarvatn hefur byggst upp sem skólasetur allt frá árinu 1928 þegar Héraðsskólinn að Laugarvatni var byggður. Í kjölfarið var Íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni stofnaður árið 1932 og Menntaskólinn á Laugarvatni 1953. Hússtjórnarskóli starfaði á Laugarvatni á árunum 1942 – 1986. Grunnskóli hefur verið starfræktur á Laugarvatni frá árinu 1934. Kennaraháskóli Íslands, nú Háskóli Íslands, hefur byggt upp háskólanám í íþrótta- og heilsufræði, með áherslu á útivist, heilsutengda þjónustu og nýtir til þess aðstöðu sem áður hýsti Hússtjórnarskólann og þau íþróttamannvirki sem byggð hafa verið á staðnum.